Stunning Instagram Logo Vector Free Download 43 For New Logo with Instagram Logo Vector Free Download 1 1024x1024 fb40x40 unionjack

2018 Ester LogoNA PDF vefstr

logona314

Hólmanes - Gönguleiðir og áhugaverðir staðir

SkeleyriSkeleyri
Auðvelt er að ganga út á Skeleyri og er best að fara út með ströndinni frá bílastæði við gömlu sorphaugana.  Í fjörunni  má  sjá strandplöntur sem þola seltu sjávar svo sem blálilju, hrímblöðku og fjöruarfa og á fjörukambinum kattartungu, tágamuru og hvönn. Æðarfugl og fleiri fuglar sjást á sundi við ströndina og vaðfuglar spígspora í fjörunni. Fagurt útsýni er yfir fjörðinn og til hafs, ströndin út með firði að norðan skeytt grænum túnblettum en eyjan Skrúður í fjarska og uppaf rís margbrotinn fjallgarður.  Á hina höndina eru fyrst grasi vaxnar og blómskrúðugar  brekkur með smá klettum en undan Baulhúsum mosaríkir móar og mýri. Skeleyri er formfögur með sínum ávölu línum og ljósleitri möl. Þar er kjörið að skoða skeljar, vaða í sjónum á heitum dögum og fara í leiki.


Baulhús - Baulhúsamýri
Taka má sveig upp að Baulhúsum frá gönguleiðinni út að Skeleyri eða ganga frá þjóðveginum á Hólmahálsi og niður að bæjarstæðinu. Baulhús eða Bauluhús munu hafa byggst fyrst um 1830 sem afbýli frá Hólmum. Býlið dregur nafn af kletti sem kallast Baula og er í flæðarmálinu rétt vestan við Skeleyri. Þar var búið frá um 1830 til 1845 og aftur frá 1909 til 1917 og enn má sjá móta þar fyrir túni.  Útsýni er fagurt frá Baulhúsum og  tilvalið að setjast á tóftarveggina og hugsa til fornra búskaparhátta eða ganga út í Baulhúsamýri og skoða votlendisplöntur eins og t.d. vetrarkvíðastör, hengistör, mýrastör, gulstör, klófífu, mýrelftingu, engjarós og horblöðku.

Básar - Ögmundargat
Ef haldið er áfram frá  Skeleyri út ströndina er komið  í Bása sem eru litlar hömrum girtar víkur. Utarlega milli tveggja bása er Ögmundargat. Það dregur nafn sitt af fjármanni á Hólmum er Ögmundur hét. Eitt sinn var hann þar með fé sitt og beitti því á þara í bás eða viki einu við sjóinn, og var öðrumegin þunn brík eða kambur sem gekk fram í sjó. Dvaldi Ögmundur svo lengi með féð þarna að hann flæddi uppi svo að hann sá sér ekki bjargar von, en brim var að vaxa og blasti  dauðinn við honum.  Tekur hann þá til bragðs að pjakka með broddstaf sínum gat í gegnum fyrrnefnda brík og komst þar  í gegn með allt féð. Gatið hefur verið við hann kennt; var það svo stórt að  á stórstraumsflóði og í ládeyðu var hægt að skjótast þar í gegn á fjögurra manna fari.  Nú hefur brimið brotið stykki framan af bríkinni og  rofið gatið á eina hlið, en sagan um hinn úrræðagóða smala lifir enn.

Ytri-Hólmaborg
Hægt er að ganga á Ytri-Hólmaborgi og er sæmileg leið á hana upp með berggangi að norðan. Útsýni þar er fagurt og ómaksins virði að ganga þar upp. Norðan í Ytri-Hólmaborg er Sauðahellir, allmikill skúti og er sagt að þar hafi  Hólmabændur  fengið skjól fyrir sauði sína  í vondum verðum. Hægt er að ganga að Sauðahelli t.d. frá Skeleyri að norðan eða frá Borgarhvammi að sunnan.

Gránubás - Hellrar - Borgarsandur
Úr Básum er gangfært suður í Gránubás sem dregur nafn sitt af grárri hryssu sem sögð er hafa synt yfir Eskifjörð frá bænum Eyri og komið þarna í land. Áfram er gengt um Hellra og yfir í Borgarhvamm suðvestan undir Ytri-Hólmaborg. Gæta þarf varúðar á leiðinni einkum ef hált er. Úr Borgarhvammi má halda upp á Innri-Hólmaborgi, eða ganga öðruhvoru megin við hana í Urðarhvamm eða í Urðarskarð.

Innri-Hólmaborg – Urðarskarð - Urðarhvammur
Ganga á Innri-Hólmaborg er tiltölulega auðveld hvort sem er austan frá eða úr Urðarskarði.  Ágætt útsýni er af borginni og úr Urðarskarði.

Urðarhvammur er sérstakt ævintýraland. Urðin er hrun eða berghlaup með mosavöxnu stórgrýti og milli steinanna eru gjótur þar sem finna má  elftingar og burkna. Upp frá urðinni norðanmegin er brött sólrík brekka í skjóli fyrir norðanátt og  er hún vaxin miklu blómskrúði og lyngi. Þar vex stóriburkni á einum stað. Í klettaveggnum vaxa aronsvöndur, sigurskúfur, burknar og steinbrjótar. Gæta skal þess að  skerða ekki sjaldgæfar tegundir svo sem aronsvönd og stóraburkna eða vaxtarstaði þeirra.

Hólmarnir - Leiðarhöfði - æðarvarp
Hægt er að gagna úr Urðarhvammi eða frá þjóðveginum sunnan í Hólmahálsi niður að ströndinni við Leiðarhöfða og Hólma.  Hólmarnir aðrir en Flathólmi eru allháir og kúptir, iðjagrænir af skarfakáli sumar sem vetur og veita skjól fjölda fugla, einkum æðarfugli og lunda, en sá síðarnefndi verpir aðeins í Stórhólma.

Leiðarhöfði mun bera nafn sitt af leiðarþingum sem Reyðfirðingar sóttu þar til forna. Samkvæmt heimildum voru á þessum slóðum tvö afbýli frá Hólmum,  Stekkur var upp af Leiðarhöfða og  Eneshús  á grandanum milli Leiðarhöfða og lands  Umferð er bönnuð um ströndina við Leiðarhöfðavík og Leiðarhöfða á tímabilinu 15. apríl – 15. júní vegna æðarvarps.

Völvuleiði á Hólmahálsi
Hægt er að keyra eða ganga frá þjóðveginum upp að Völvuleiði efst á  Hólmahálsi. Það var fyrir nokkrum árum einungis grasþúst en nú hefur verið hlaðin há varða á legstað völvunnar. Völvan  er talin vera verndarvættur Reyðarfjarðar. Sagan segir að Völva ein hafi búið á Sómastöðum í Reyðarfirði nokkru fyrir þann tíma er Tyrkir rændu hér við land árið 1627. Áður en hún andaðist lagði hún svo fyrir að sig skyldi grafa þar er best væri útsýni yfir Reyðarfjörð og kvað þá  fjörðinn aldrei mundu rændan af sjó meðan nokkurt bein væri óbrotið í sér. Var hún þá grafin á fyrrnefndum stað. Þegar Tyrkir komu að Austfjörðum hugðust þeir sigla inn á Reyðarfjörð og ræna Hólmakirkju og kaupstaðinn að Breiðuvíkurstekk. Þóttust þeir eiga þar fangsvon góða. En er þeir komu í fjarðarmynnið kom á móti þeim geysandi stormur svo að fjöll þakti í sjávarroki beggja megin fjarðar. Urðu þeir frá að hverfa við svo búið.

Náttúrustofa Austurlands

  • Kt: 461094-2529
  • Sími: 477-1774
  • Netfang: na(hjá)na.is

Starfsstöð í Neskaupstað

Bakkavegi 5
740 Neskaupstaður

Starfsstöð á Egilsstöðum

Tjarnarbraut 39b
700 Egilsstaðir