Stunning Instagram Logo Vector Free Download 43 For New Logo with Instagram Logo Vector Free Download 1 1024x1024 fb40x40 unionjack

2018 Ester LogoNA PDF vefstr

logona314

Grágæsamerkingar 2016

Grágæsamerkingar í júlí 2016Dagana 18.-22. júlí 2016 voru grágæsir handsamaðar og merktar á nokkrum stöðum á Norður- og Austurlandi. Megintilgangurinn var að setja sjö gsm-senda á fullorðnar grágæsir sem víðast og kortleggja ferðir þeirra næstu tvö árin. Auk senditækjagæsa voru aðrar grágæsir merktar með appelsínugulum plasthálshringjum, minni ungar fengu hvíta fótplasthringi og allar gæsirnar fengu stálhring á fót. Samtals voru merktar 149 gæsir. Merkingastaðirnir voru á Blönduósi, Vatnshlíðarvatni, Dalvík, Egilsstöðum, Bóndastaðablá á Úthéraði og Norðfirði.
Um samvinnuverkefni Verkís, WWT í Bretlandi og Náttúrustofunnar var að ræða sem nutu liðstyrks sumarvinnufólks Landsvirkjunar í Blöndustöð og Fljótsdalsstöð, vinnuskólans á Dalvík og starfsmanna Isavia á Egilsstaðaflugvelli og fleiri áhugasamra.

Vöktun ársins 2015 og veiðikvóti ársins 2016

Veiðisvæði 2016Hreindýraveiðar hefjast á morgun 15. júlí, en þá má byrja að veiða tarfa. Veiðar á kúm hefjast svo 1. ágúst n.k., og eru veiðitímabilin þau sömu og í fyrra. Umhverfis- og auðlindaráðherra ákvað að kvóti þessa árs skyldi vera samhljóma tillögum Náttúrustofu Austurlands, þ.e 1300 dýr þ.a. 848 kýr og 452 tarfar. Dregið verður úr tarfaveiði um þriðjung frá árinu 2015. Hlutfallslega mest verður dregið úr veiðum á veiðisvæðum 9 (um 40%) og 7 (21%). Aftur á móti verður veiði aukinn (20%) á veiðisvæði 4. Ekki eru lagðar til breytingar á ágangssvæðum fyrir veiðitímabilið 2016 en lagt er til að mörk þeirra verði endurskoðuð á næstu misserum.
Í skýrslu Náttúrustofunnar sem liggur til grundvallar tillögum um veiðikvóta ársins 2016  kemur fram að um 91% af kvótanum náðist 2015. Það er vel viðunandi árangur en veiðiálag var mikið á veiðisvæðum 6 og 7 þar sem þurfti að fækka dýrum nokkuð. Samkvæmt upplýsingum  úr veiðiskýrslum leiðsögumanna 2015 var meðalfallþungi eftir haustveiðitímabilið 43 kg hjá 3-5 vetra kúm en87 kg hjá 3-5 vetra törfum. Fallþungi var meiri á veiðisvæðum 1, 3, 4 og 5 heldur en á 2, 6 og 7. Upplýsingar um bakfitu gáfu til kynna svipaðan mun milli veiðisvæða. Ekki bárust nægar upplýsingar um fallþunga og bakfitu fyrir dýr á veiðisvæðum 8 og 9.
Hægt er að lesa skýrslu Náttúrustofunnar um vöktun ársins 2015 og tillögur að kvóta ársins 2016 hér.

Hreindýr

 

Ný fræðsluskilti í Fólkvangi Neskaupstaðar og Hólmanesi fólkvangi og friðlandi

Ný skilti í fólkvöngumNáttúrustofa Austurlands hefur nú  endurnýjað fræðsluskiltin á göngustígunum í Fólkvangi Neskaupstaðar og Hólmanesi. Texti var þýddur yfir á ensku og skiltin prentuð á álplötur sem eiga að vera endingarbetri en þau gömlu. Skiltunum er ætlað að auka upplifun gesta á svæðunum með fræðslu um fugla, jarðfræði, gróður og annað sem til fellur. Stofan vil jafnframt brýna fyrir fólki að ganga vel um svæðin og fylgja göngustígum.


Verkið var styrkt af samfélagssjóði Landsvirkjunar

Ný skilti í fólkvöngum Ný skilti í fólkvöngum

Náttúrufræðinámskeið í Neskaupstað

Náttúrufræðinámskeið í NeskaupstaðDagana 4. - 8. júlí var haldið Náttúrufræðinámskeið á vegum Náttúrustofu Austurlands fyrir börn á aldrinum 8-10 ára. Námskeiðið var styrkt af samfélagssjóði Samvinnufélags útgerðarmanna í Neskaupstað og Alcoa Fjarðarál. Námskeiðið var fullt og tóku 10 hressir krakkar þátt. Það var með eindæmum vel heppnað en krakkarnir skoðuðu með kennurum sínum ýmiskonar lífverur í mismunandi vistkerfum. Spurningum og fróðleik af ýmsu tagi var velt upp, til að mynda um  tegundasamsetningu vistkerfa, búsvæða- og fæðuval lífvera og lífeðlisfræði þeirra. Lífríki fjörunnar var kannað og fuglategundir greindar, plöntur voru skoðaðar, greindar og pressaðar, settar voru upp jarðvegsgildrur í mismunandi plöntusamfélögum og smádýrin sem veiddust skoðuð. Þá var gengið upp að Hólatjörnum í frábæru veðri þar sem vaðið var út í tjarnir og lífríki ferskvatns var kannað. Í lok hvers dags voru skráðir í feltbók helstu atburðir dagsins og tegundir sem fundust. Seinasta degi námskeiðsins var varið inni inn í skólastofu Verkmenntaskóla Austurlands þar sem pressaðar plöntur voru settar í möppur á vísindalegan hátt, sýnin sem söfnuðust í vikunni voru skoðuð í víðsjá og tegundir greindar og í lokin rifjað upp það helsta sem við höfðum séð í vikunni. Að lokum fengu allir viðurkenningarskjöl til votts um dugnað og áhugasemi á námskeiðinu.
Starfsmenn Náttúrustofunnar skemmtu sér virkilega vel enda var hópurinn samansettur af hressum og skemmtilegum krökkum sem sýndu náttúrunni áhuga og virðingu. Við hlökkum til næsta námskeiðs sem verður haldið 8. - 12. ágúst nk.

Afmælisárið

Afmælissigling á GerpiNáttúrustofa Austurlands varð 20 ára þann 24. júní 2015. Undanfarið ár hefur verið haldið upp á tímamótin en segja má að þeim hafi lokið formlega með kvöldsiglingu um Norðfjarðarflóa á afmælisdaginn þann 24. júlí s.l. Afmælissiglingin var vel sótt og komust færri að en vildu. Siglt var með gamla eikarbátnum Gerpi undir Nípuna, yfir að Rauðubjörgum og svo inn í Hellisfjörð þar sem farið var í land og gestir gæddu sér á veitingum. Siglingin var afar vel heppnuð, enda veður eins og best verður á kosið, dauðalogn og hlýtt. Í lok siglingar fengu afmælisgestir  að kveðjugjöf glæný eintök af tímaritinu Glettingi sem var að koma úr prentsmiðju. Tvöfalt rit Glettings er að þessu sinni helgað náttúru Austurlands og Náttúrustofu Austurlands í tilefni afmælisins.

(Á þessum tímamótum vill starfsfólk Náttúrustofunnar þakka öllum samstarfsmönnum og velunnurum samvinnuna og velviljann í gegnum árin. Það er okkur ómetanlegt. )

Náttúrufræðinámskeið á Eskifirði 2016

Hópmynd af þáttakendum á Náttúru námskeiði 2016Dagana 20.-24. júní var haldið Náttúru námskeið á vegum Ferðaþjónustu Mjóeyrar og Náttúrustofu Austurlands. Námskeiðið er ætlað krökkum á aldrinum 8-10 ára.  Að þessu sinni tóku 11 krakkar þátt og var námskeiðið fullbókað. Áhugi var mikill hvort sem um ræddi marflær í fjöru, hornsíli í tjörnum, kóngulær og járnsmiðir í sverði, fuglar í lofti, plöntur á foldu eða jarðfræði og saga Helgustaðanámu. Enginn varð verri þótt hann vöknaði og allir urðu margs vísari. Spurningum rigndi yfir námskeiðshaldara og ýmislegt þurfti að rifja eða fletta upp.  Kennarar jafnt sem nemendur virtust hafa gagn og gaman af.



Náttúrustofa Austurlands

  • Kt: 461094-2529
  • Sími: 477-1774
  • Netfang: na(hjá)na.is

Starfsstöð í Neskaupstað

Bakkavegi 5
740 Neskaupstaður

Starfsstöð á Egilsstöðum

Tjarnarbraut 39b
700 Egilsstaðir