Stunning Instagram Logo Vector Free Download 43 For New Logo with Instagram Logo Vector Free Download 1 1024x1024 fb40x40 unionjack

2018 Ester LogoNA PDF vefstr

logona314

Fólkvangur Neskaupstað - Gönguleiðir og áhugaverðir staðir

Gönguleiðir og áhugaverðir staðir

Hagi
Auðvelt er öllum að ganga út í Haga. Á aðra hönd er ströndin með stöpum og vogum, þar er víða aðgrunnt og brýtur á boðum og flesjum. Berggangar standa á nokkrum stöðum af sér ágang hafsins og mynda stapa og tröllahlöð skammt frá landi. Dökkt bergið stingur fagurlega í stúf við hvítfreyðandi brimrótið sem oft verður stórfenglegt. Á hina höndina er klettabeltið með gróðursælum brekkum neðanundir. Stór björg hafa fallið úr Hagaklettum við frostveðrun, og ef til vill brimrót forðum tíð, og myndað Urðir. Björgin standa nú þar á ýmsa kanta eins og hús í ævintýraborg, mörg hver skreytt mosum og fléttum. Milli þeirra er skýlt og víða skuggsælt. Vaxa þar meðal annars byrkningar svo sem tófugras og skollafingur og krossköngulóin spinnur þar vefi sína. Mótekja var stunduð rétt innan við Urðir um og eftir síðustu aldamót og sér enn móta fyrir mógröfum.


Páskahellir
Gaman er að ganga niður í Páskahelli. Tréstigi liggur niður í hann en ganga má áfram út grýtta fjöruna og upp utan við hellinn. Páskahellir er skúti sem myndast hefur við sjávarrof. Í gafli hans má sjá holur eftir tré sem að öllum líkindum stóðu í skógi er varð undir hrauni fyrir um 12 millj. ára. Við hellinn er einnig hægt að virða fyrir sér fagurlega formað bólstraberg og volduga bergganga. Víða má sjá holufyllingar af bergkristal og fleiri steindum. Fögur útsýn er austur á Barðsneshorn og til Rauðubjarga með sínu eilífa sólskini. Sjór með smálífverum stendur uppi í pollum á Hellistanga og utar skreyta bláliljubreiður klettana að sumri.
Sagt er að á páskadagsmorgun megi sjá sólina dansa í hellinum. Sagan segir einnig að Bakkabóndi hafi þar forðum á páskadagsmorgun náð hami fríðrar selameyjar sem hafði ásamt fleirum úr liði Faraós gengið þar á land til gleðileika. Giftist bóndinn henni og áttu þau sjö börn. Náði hún þá haminum aftur og hvarf í sæ til annarra sjö barna. Seinna bætti sami bóndi kúakyn sitt með sænauti en hann náði að sprengja belg þess við Uxavog. Var talið að selkonan hafi þar sent fyrrum manni sínum björg í bú.

Brytaskálar
Talsverðar rústir eru við Brytaskála sem sagðar eru vera  gamlar fiskiskálatættur og hefur fjaran þá verið notuð fyrir uppsátur. Áður fyrr, þegar bátar voru litlir og vanbúnir, var mikils virði að hafa lendingu sem næst fiskimiðunum þótt lendingarskilyrði væru erfið.  Ekki er ljóst hvernig örnefnið Brytaskálar er til komið. Ein tilgáta er að staðurinn sé kenndur við Skorrastaðarbryta enda hafi hann haft það hlutverk að sjá um aðdrætti fyrir prestsetrið og á að hafa stundað þarna útróðra.

Hundsvík
Hægt er að ganga frá Páskahelli út að Hundsvík og er gengt niður í víkina. Þar er fagurt útsýni yfir Norðfjarðarflóa og til suðvesturs sér inn í Viðfjörð og Hellisfjörð. Upp að líta rís Nípan með hamraflugum, giljum og fossandi lækjum snemmsumars. Fært er áfram út að Nípustapa en gæta skal varúðar þar sem hætta getur verið á grjóthruni við vissar aðstæður.

Um Skálasnið eða Skálagjót
Upp úr Haga er gengt um Skálasnið upp á utanverðan Neðri-Háls eða um Skálagjót upp í enda Mjóurákar. Báðar leiðir eru sæmilega greiðar en nokkuð brattar og ástæða til að gæta varúðar við uppgönguna. Ríkulegur blómgróður er undir klettunum og fallegar lyngbrekkur. Á þessum slóðum leynist lyngbúinn og burkninn þúsundblaðarós sem eru fágætar tegundir. Er upp í klettana kemur má, auk algengra berangursplantna, finna bergsteinbrjót og klettafrú sem einnig eru fágætar. Gæta skal þess að hrófla ekki við þessum tegundum eða vaxtarstöðum þeirra.

Út Hagakletta
Góð gönguleið er út Hagakletta og hægt að ganga áfram upp á Efri-Háls eða niður í Haga um Skálasnið eða Skálagjót. Yst á Efri-Hálsi er gróið klettanef með stórum steini og kallast þar Þúfa. Utan hennar byrjar Breiðarák eða Göngurák. Frá Þúfu er fallegt útsýni út með Nípunni, niður í Hundsvík og Páskahelli og inn til Hagans.

Viðarhjalli
Hægt er að ganga upp á Viðarhjalla af Efri- Hálsi um Breiðasnið. Hjallinn er allbrattur en þar er fallegur gróður, lyng, víðir og skriðult birki, og gott útsýni.. Áður fyrr var geitum beitt þar auk sauðfjár. Innst á hjallanum rennur Hálslækur niður á Hálsa, hjá Selhrauni og niður í innanverðan Haga. Nípa
Gönguferð á Nípukoll er fyrir þá sem eru vanir fjallgöngum. Sæmileg leið upp um hamrabeltin er rétt innan við gil Stóralækjar. Frá Nípukolli er mikið og fagurt útsýni, Mjóifjörður og Norðfjörður blasa við og fjöll nær og fjær.

Kerling var klettastrýta sem stóð utan í Nípunni ofarlega og er nú horfin  Talið er að hún hafi hrapað um 1850. Sagan segir að Nípukerlingin væri tröll í álögum og drangurinn Einbúi í Dalbakka handan Mjóafjarðar væri bóndi hennar. Víst er að þau hröpuðu  og hurfu með stuttu millibili.

Náttúrustofa Austurlands

  • Kt: 461094-2529
  • Sími: 477-1774
  • Netfang: na(hjá)na.is

Starfsstöð í Neskaupstað

Bakkavegi 5
740 Neskaupstaður

Starfsstöð á Egilsstöðum

Tjarnarbraut 39b
700 Egilsstaðir