Stunning Instagram Logo Vector Free Download 43 For New Logo with Instagram Logo Vector Free Download 1 1024x1024 fb40x40 unionjack

2018 Ester LogoNA PDF vefstr

logona314

Herfugl á Egilsstöðum

Laugardaginn 21. október bárust fréttir af Herfugli (Upupa epops) á Egilsstöðum. Herfuglar hafa heimkynni um Evrópu, Asíu og norður Afríku. Þeir eru með langann og mjóann gogg, áberandi kamb á höfðinu, hvít- og svart röndótt bak og eru auðgreindir á flugi vegna breiðra vængja og sérkennilegs fluglags.  Ekkert sást meir til fuglsins svo vitað sé síðan á laugardag þar til þriðjudagsins 24. október þegar hann gladdi starfsmann náttúrustofunnar sem var við göngu í Fellabæ. Þar flaug hann um bæinn og stillti sér prúður fyrir framan myndavélina. Herfuglar eru fremur sjaldgæfir flækingar á Íslandi og því afar skemmtilegt að rekast á einn hér á svæðinu. 

Gaman væri að heyra frá fólki ef það rekst á hann. 

Myndirnar tók Indriði Skarphéðinsson

DSC 1019 Herfugl

DSC 1022 Herfugl

Minning Fríða Jóhannesdóttir

Frida   webbÍ dag kveðjum við Fríðu í hinsta sinn. Fríða kom til starfa hjá Náttúrustofu Austurlands í september sl. og sinnti m.a. rannsóknum og vöktun hreindýra. Hún var í árlegri sumartalningu hreindýra þegar hún lést. Fríða var vel menntaður vísindamaður með fjölbreytta reynslu víðs vegar að úr heiminum. Við töldum mikinn feng að fá hana til stofunnar. Hún vann af krafti við að setja sig inn í ný verkefni og átti sannarlega framtíðina fyrir sér við rannsóknir á náttúru Austurlands.

Fríða hafði margt til brunns að bera sem einkennir góðan vísindamann, hún var opin fyrir nýjungum, skörp, lausnamiðuð og brann fyrir viðfangsefnum sínum, sem snérust á einn eða annan hátt um að rannsaka hvernig dýr bregðast við breytingum í umhverfi sínu. Fríða var frumleg í nálgun og tilbúin að skoða viðfangsefni sín frá ólíkum hliðum. M.a. hafði hún hugmyndir um að túlka niðurstöður með aðstoð listamanna. Hún hafði mikinn áhuga á að miðla vísindum til almennings, einkum ungs fólks til að vekja áhuga. Það kom bersýnilega fram í samskiptum hennar við frændsystkinin hennar sem hún talaði svo fallega um og var augljóslega stolt af.

Fríða var góður samstarfsmaður, örlítið feimin í fyrstu, hógvær, jákvæð, hlýleg og skemmtilega húmorísk og glettin. Það var gaman að spjalla við hana, enda hafði hún sinnt frumlegum rannsóknum um ævina og hafði frá mörgu að segja. Fríða hafði samkennd með bæði mönnum og dýrum og voru mýs og íkornar í sérstöku uppáhaldi hjá henni. Það var henni því mikið tilhlökkunarefni að undirbúa vöktun á hagamúsum sem hefjast áttu í haust í samstarfi við Náttúrufræðistofnun Íslands. Við munum alltaf minnast Fríðu hlýlega þegar við rekumst á þessi dýr í framtíðinni.

Því miður voru kynni okkar af Fríðu alltof stutt og svo margar minningar sem átti eftir að skapa. Við yljum okkur nú við góðar minningar úr samverustundum í skemmtilegri starfsmannaferð Náttúrustofunnar á Seyðisfjörð í lok júní og í Múlanum á föstudeginum fyrir slysið. Þar lék hún á alls oddi og sagði okkur meðal annars með bliki í auga hvað hún hlakkaði mikið til að fara að fljúga hreindýraflug með Skarphéðni þá helgi. Við geymum dýrmætar minningar með okkur.

Kæra Fríða, við kveðjum þig með trega og þökkum þér innilega fyrir vináttuna og samstarfið.
Foreldrum Fríðu, systrum, mágum og frændsystkinum sendum við okkar innilegustu samúðarkveðjur. Megi minningin um yndislegu og glettnu Fríðu veita styrk á erfiðum tímum

Fyrir hönd starfsfólk og stjórnar Náttúrustofu Austurlands Kristín Ágústsdóttir forstöðumaður

 

Minning Skarphéðinn G. Þórisson

MinningargreinamyndÍ dag fylgjum við kærum starfsfélaga Skarphéðni síðasta spölinn. Skarphéðinn kom í fast starf hjá Náttúrustofu Austurlands árið 2000, þegar stofnunin tók við vöktun hreindýra á Íslandi. Náttúrustofan hefur notið starfskrafta hans óslitið síðan. Þó nú væri farið að líða að starfslokum höfðum við væntingar um að geta gengið í hans viskubrunn áfram. Skarphéðinn undirbjó og stýrði hreindýrarannsóknum í áratugi og var í árlegri sumartalningu hreindýra þegar hann lést. Samleið Skarphéðins og hreindýranna var þó miklu lengri, en hann kom fyrst að rannsóknum á þeim árið 1979, eða jafnvel strax árið 1787 þegar hreindýr komu fyrst til Austurlands, eins og stundum var grínast með. Enginn hafði jafn yfirgripsmikla þekkingu á íslenskum hreindýrum, sögu þeirra, vistfræði og lífsháttum eins og hann. Þá hafði hann byggt upp öflugt tengslanet áhugafólks um íslensk hreindýr við íbúa Austurlands, veiðimenn, listamenn og innlenda og erlenda vísindamenn.

Skarphéðinn var öflugur náttúruvísindamaður og íslenskt fræðasamfélag hefur misst mikið við fráfall hans. Auk hreindýrarannsókna kom hann að fjölmörgum öðrum verkefnum stofunnar. Enginn kom að tómum kofanum hjá honum, hvort sem reynt var að greina fugl, stein, skordýr, plöntu eða jafnvel stöðvarkóng. Jarðfræðina las hann úr landslaginu og örnefni kunni hann manna best. Ekkert í náttúrunni var honum óviðkomandi og svo margt sem honum þótti spennandi og áhugavert. Það var afar gefandi að vinna með slíkum eldhuga. Hann átti auðvelt með að deila þekkingu sinni og náði til allra á jafningagrunni, hvort sem um var að ræða leikskólabörn, starfsfélaga, aðra vísindamenn eða áhugafólk um náttúrufar. Hann miðlaði í samtölum, fyrirlestrum og skrifum en ekki síst með ljósmyndunum sem voru mikil listasmíð.

Skarphéðinn var ekki bara náttúruvísindamaður, hann var mannvinur sem hafði áhuga á fjölbreytileika mannlífs, náttúruvernd, sögu, menningu og listum og hafði áhrif á samfélagið sem hann var hluti af hverju sinni, hvort heldur það var á Austurlandi eða í Afríku.

Vissulegar var Skarphéðinn einstakur starfsfélagi, en það orð fangar ekki það sem hann var okkur. Hann var hluti af vinnufjölskyldunni okkar. Hann var greiðvikinn, gefandi og hjálpsamur vinur, hvetjandi og hógvær og bar virðingu fyrir verkefnum annarra. Vissulega stundum stríðinn og hafði sína sérvisku eins og við öll. Fyrir utan að vera einn öflugasti starfsmaðurinn í vettvangsvinnu, með sín haukfránu augu sem gátu komið auga á grástör eða gullstör úr mílufjarlægð, var hann líka alltaf sá best klæddi.

Minningarbrot sem þessi ná engan vegin utan um það sem Skarphéðinn var okkur og svo mörgum öðrum. Með miklum trega kveðjum við hann og þökkum honum vináttuna og samfylgdina.

Ragnhildi, börnum hans og öðrum aðstandendum sendum við okkar innilegustu samúðarkveðjur. Megi minningin um lífsgleði hans og eldmóð veita styrk á erfiðum tímum.

F.h. starfsfólks og stjórnar Náttúrustofu Austurlands
Kristín Ágústsdóttir forstöðumaður

Blessuð sé minning þeirra

2022 08 17 071  2

Líkt og greint hefur verið frá í fjölmiðlum varð hörmulegt flugslys í Sauðahlíðum norðaustan við Hornbrynju á sunnudag. Um borð í vélinni voru tveir farþegar, Fríða Jóhannesdóttir spendýrafræðingur og Skarphéðinn G. Þórisson líffræðingur, starfsfólk Náttúrustofunnar. Þau létust bæði við slysið, auk flugmanns vélarinnar.
Fríða og Skarphéðinn sinntu rannsóknum og vöktun á hreindýrastofninum hér á landi, og var flugið þáttur í því verkefni. Árlega eru farnar nokkrar flugferðir til þess að telja hreindýr úr lofti og hefur það verið hluti af verkefnum Náttúrustofunnar um árabil.
Orð geta ekki lýst því hversu þungbært það er að missa vinnufélaga og vini í svo hörmulegu slysi. Höggvið var stórt skarð í fámennan og þéttan starfsmannahóp. Verkefni næstu daga verða fyrst og fremst að halda utan um hvert annað, styðja og styrkja til að takast á við áfallið saman.
Hugur okkar er fyrst og fremst hjá fjölskyldu og ástvinum allra þeirra sem létust. Við sendum þeim okkar innilegustu samúðarkveðjur.
Stjórn og starfsfólk Náttúrustofu Austurlands

Gróðurframvinda í lúpínubreiðum á Austurlandi

 

 

Þann 25. maí tók Náttúrustofan þátt í fyrirlestraröð sem Skriðuklaustur, Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Austurlandi og fleiri stofnanir standa fyrir. Í þetta sinn fjallaði Guðrún Óskarsdóttir, plöntuvistfræðingur, um rannsókn á gróðurframvindu í lúpínubreiðum á Austurlandi. Við þökkum fyrir tækifærið til að kynna þessar niðurstöður og góðar umræður í kjölfarið.


Til að hlusta á upptöku af viðburðinum má smella hér.  viðburðurinn hefst á mínútu 7.
Skýrslu um rannsóknina má lesa með því að smella hér. 
Að lokum má nálgast skýrslu Náttúrufræðistofnunar Íslands, sem þessi rannsókn byggði á, hér. 

Náttúrustofa Austurlands

  • Kt: 461094-2529
  • Sími: 477-1774
  • Netfang: na(hjá)na.is

Starfsstöð í Neskaupstað

Bakkavegi 5
740 Neskaupstaður

Starfsstöð á Egilsstöðum

Tjarnarbraut 39b
700 Egilsstaðir