Stunning Instagram Logo Vector Free Download 43 For New Logo with Instagram Logo Vector Free Download 1 1024x1024 fb40x40 unionjack

2018 Ester LogoNA PDF vefstr

logona314
  • Fólkvangar og friðlönd

Fólkvangar og Friðlönd

Sveitarfélagið Fjarðabyggð státar af því að hafa innan sinna marka tvo af átján fólkvöngum á Íslandi, en þeir eru:
Fólkvangur Neskaupstaðar, friðlýstur árið 1972 og Fólkvangur og friðland í Hólmanesi, friðlýst árið 1973
Auk þess er að finna í Fjarðabyggð náttúruvættið Helgustaðanámu sem er vernduð vegna mikilvægra jarðmyndana. Náttúrustofan hefur um árabil veitt ráðgjöf og unnið fræðsluefni er varðar friðlýst svæði í Fjarðabyggð.
Samkvæmt skilgreiningu Umhverfisstofnunar eru fólkvangar svæði sem samkvæmt náttúruverndarlögum eru friðlýstir sem útivistarsvæði í samvinnu við hlutaðeigandi sveitarfélög. Fólkvangar eru stofnaðir að frumkvæði sveitarfélaga og sjá þau einnig um reksturinn. Tilgangurinn með fólkvöngum er að tryggja almenningi aðgang að svæðum til þess að njóta útivistar.
Samkvæmt skilgreiningu Umhverfisstofnunar eru náttúruvætti sérstæðar náttúrumyndanir, s.s. fossar, eldstöðvar, hverir, drangar, hellar og haun, ásamt fundarstöðum steingervinga og merkilegra steinda. Náttúruvætti eru mörg þess eðlis að á þeim hvílir almenn helgi og markmið friðlýsingar er að koma í veg fyrir jarðrask. Á landinu hafa 34 svæði verið friðlýst sem náttúruvætti. Auglýsingar um friðlýsingu náttúruvættisins eru birtar í Stjórnartíðindum og má finna á heimasíðu Umhverfisstofnunar
Hólmanes er að hluta til friðland en samkvæmt skilgreiningu Umhverfisstofnunar kallast friðland það landsvæði sem friðlýst er samkvæmt náttúruverndarlögum vegna sérstaks landslags, gróðurfars eða dýralífs. Markmið friðlýsinga eru mismunandi sem og reglur sem á svæðunum gilda. Friðlönd eru í mörgum tilfellum á landi í einkaeigu eða á afréttum og reglur um þau eru samkomulagsatriði milli rétthafa lands og Náttúruverndar ríkisins.
Náttúrustofa Austurlands í samvinnu við Eigna-, skipulags- og umhverfisnefnd Fjarðabyggðar hefur umsjón með Fólkvangi Neskaupstaðar.   Bæði í Fólkvangi Neskaupstaðar og í friðlandinu og fólkvangnum í Hólmanesi hefur verið komið fyrir fræðslustígum.

Útgefið efni:
Hólmanes fólkvangur og friðland, upplýsingaskilti / Information in english and german.
Friðlýsing - Conservation - Naturschutz
Gönguleiðir - Hiking trails - Wanderwege
Dýralíf og Gróðurfar - Wildlife and vegetation - Fauna und flora

Útgefið eldra efni:

Hólmanes fólkvangur og friðland bæklingur Íslenska

Fólkvangurinn í Neskaupstað bæklingur  Íslenska
Neskaupstaður Country park Enska/English
Naturschutzgebit bei Neskaupstaður Þýska/German

 

 

Fólkvangurinn í Neskaupstað

Friðlýsing fólkvangsins
Vorið 1971 lagði náttúruverndarnefnd Neskaupstaðar fram tillögu um stofnun fólkvangs utan Stóralækjar. Tillagan varð til í framhaldi af því að nefndin hafði hlutast til um að hætt var við fyrirætlanir um grjótnám úr Hagaklettum og að förgun sorps við Haga var stöðvuð. Tillagan var samþykkt í bæjarstjórn og síðar hjá Náttúruverndarráði og ráðuneyti. Friðlýsingin tók formlega gildi 29. nóvember 1972 og var Fólkvangur Neskaupstaðar sá fyrsti sinnar tegundar hérlendis. Fáir þéttbýlisstaðir á Íslandi eiga sér jafn ákjósanlegt friðland við bæjarvegginn. Landslag er tignarlegt, útsýni fagurt, auðugt lífríki og fjölbreyttar jarðmyndanir. Svæðið er því kjörið til útivistar, náttúruskoðunar og náttúrufræðslu.


Landslag og jarðfræði
Norðfjarðarnípa eða Nípa nefnist ysti hluti fjallgarðsins milli Mjóafjarðar og Norðfjarðar. Skammt utan Stóralækjar er fjallið hæst, 819 m og heitir þar Nípukollur. Hallar fjallsegginni þaðan til norðausturs niður í 609 m en þá taka við hamraflug í sjó að Flesjartanga. Fólkvangurinn liggur austan í Nípunni frá fjallsegg að sjó og tekur friðlýsingin einnig til grynninga út frá ströndinni.
Nípan er upphlaðin úr blágrýtishraunlögum, mismunandi þykkum og hallar þeim dálítið inn til landsins. Hjallar og rákir sem eru milli hraunlaganna fara því hækkandi út Nípuna. Víða skerast berggangar upp gegnum hraunlögin. Hagi er neðsti hjallinn en ofan hans eru Hálsar sem skiptast um slitrótt klettabelti í Neðri- og Efri- Hálsa. Innsti hluti klettanna heitir Selhraun rétt utan við Stóralæk. Fyrir ofan Efri- Hálsa er Viðarhjalli, neðan undir hamrabeltum Nípunnar í 250 -300 m hæð.
Hagi er talinn vera gamall brimstallur, til þess benda m.a. sléttfægð og þverhnípt basaltlög ofan hans og stórgrýtisbjörgin á kafla neðan þeirra þar sem heitir Urðir. Ströndin neðan Haga og út með Nípu eykur á fjölbreytni svæðisins. Leifar af berggöngum standa þar á nokkrum stöðum af sér ágang hafsins og mynda stapa skammt frá landi. Brimið hefur víða sorfið skúta milli hraunlaga og er Páskahellir þeirra mestur.


IMG 1917x

Gróðurfar
Tegundafjölbreytni er mikil í fólkvanginum og gróðurlendi víða gróskumikil. Einkennisjurtir Austfjarða, sjöstjarna, gullsteinbrjótur, maríuvöttur og bláklukka vaxa þar allar. Einnig allmargar fremur sjaldséðar tegundir svo sem villilín, klettafrú, þúsundblaðarós, sifjarsóley, skógfjóla, lyngbúi, hagastör og dúnhulstrastör.
Í brekkum undir klettum bæði í Haga og uppi á Hálsum þar sem snjór hlífir að vetri og skjólgott er að sumri er mikið blómskrúð fyrri hluta sumars. Talsvert votlendi er á Hálsum og sums staðar í Haga. Þar vaxa meðal annars starir, sef og fífur en grös þar sem þurrara er. Víða eru fallegir lyngmóar og sums staðar dálítið kjarr. Í hömrum og kömbum við sjóinn er að finna saltþolnar plöntur svo sem skarfakál, burnirót, kattartungu og blálilju.
Fólkvangslandið var löngum nýtt til beitar, einkum Hagi, en gróður hefur tekið stakkaskiptum eftir að friðað var fyrir beit um 1970. Tegundasamsetning gróðurlenda er óðum að breytast, blómjurtir, lyng og víðir koma smám saman í stað graslendis. Birki og allháir víðibrúskar er komið í hlíðar . Ætihvönn og geitla eru nú algengar en sáust varla meðan landið var beitt. Einir og fleiri tegundir sem héldu velli í rákum úti í Nípu eru óðum að dreifast þaðan.


Dýralíf
Fjölskrúðugt fuglalíf er við Haga og úti í Nípu sem er ein iðandi fuglabyggð er utar dregur. Í sjávarhömrunum er varpstaður ýmissa bjargfugla. Fýll og rita eru algeng, einnig silfurmáfur, svartbakur og lundi. Æðarfugl er við ströndina og dílaskarfar sjást oft, einkum að vetri. Í hömrum ofan Hagans verpir hrafn og skógarþröstur. Steindepill verpir í Urðum og þar hefur sést músarrindill um varptímann. Uppi á Hálsum verpa ýmsir vaðfuglar og mófuglar og bjargdúfa í klettaholum inn og upp af Hundsvík.
Í pollum á flesjum og töngum má um fjöru og eftir brim sjá ýmis smádýr sem tilheyra lífríki fjörunnar svo sem marflær. Hrúðurkarl og sniglar eru víða á klettum við ströndina og í Haganum er svartsnigill og Austfjarðabobbi eða lyngbobbi. Í mógröfum má finna brunnklukkur.


Náttúruvernd
Markmið friðlýsinga eru einkum tvö. Annars vegar að varðveita hið friðlýsta landsvæði svo ósnortið af manna völdum sem kostur er þannig að lífríkið fái þar að dafna eftir lögmálum náttúrunnar sjálfrar. Samfelldar heildir ósnortinnar náttúru, sem geyma villtar tegundir lífvera og búsvæði þeirra, eru nokkurs konar bankar líffræðilegrar fjölbreytni. Slík svæði verða sífellt mikilvægari eftir því sem vaxandi hluti jarðar ber merki mannlegra umsvifa. Hins vegar er markmið friðlýsinga að gefa fólki kost á að njóta útivistar í óspilltri náttúru sér til ánægju, lífsfyllingar og menntunar.
Til að ná markmiðum friðlýsingarinnar voru settar reglur um fólkvanginn. Þar segir:
    Að svæðið sé friðland þar sem fólki er einungis heimil för fótgangandi.
    Að ekki megi skemma gróður eða trufla dýralíf.
    Að mannvirkjagerð og jarðrask, búfjárbeit og meðferð skotvopna sé bönnuð.
Náttúrustofa Austurlands hefur eftirlit með fólkvanginum


Gönguleiðir og áhugaverðir staðir
Gonguleidir stort   minna
Hagi
Auðvelt er öllum að ganga út í Haga. Á aðra hönd er ströndin með stöpum og vogum, þar er víða aðgrunnt og brýtur á boðum og flesjum. Berggangar standa á nokkrum stöðum af sér ágang hafsins og mynda stapa og tröllahlöð skammt frá landi. Dökkt bergið stingur fagurlega í stúf við hvítfreyðandi brimrótið sem oft verður stórfenglegt. Á hina höndina er klettabeltið með gróðursælum brekkum neðanundir. Stór björg hafa fallið úr Hagaklettum við frostveðrun, og ef til vill brimrót forðum tíð, og myndað Urðir. Björgin standa nú þar á ýmsa kanta eins og hús í ævintýraborg, mörg hver skreytt mosum og fléttum. Milli þeirra er skýlt og víða skuggsælt. Vaxa þar meðal annars byrkningar svo sem tófugras og skollafingur og krossköngulóin spinnur þar vefi sína. Mótekja var stunduð rétt innan við Urðir um og eftir aldamót 19. og 20. aldar og sér enn móta fyrir mógröfum.


Brytaskálar
Talsverðar rústir eru við Brytaskála sem sagðar eru vera gamlar fiskiskálatættur og hefur fjaran þá verið notuð fyrir uppsátur báta. Áður fyrr, þegar bátar voru litlir og vanbúnir, var mikils virði að hafa lendingu sem næst fiskimiðunum þótt lendingarskilyrði væru erfið.   Ekki er ljóst hvernig örnefnið Brytaskálar er til komið. Ein tilgáta er að staðurinn sé kenndur við Skorrastaðarbryta enda hafi hann haft það hlutverk að sjá um aðdrætti fyrir prestsetrið og á að hafa    stundað þarna útróðra.

 

 


IMGP1494Páskahellir
Gaman er að ganga niður í Páskahelli. Stigi liggur niður í hann en ganga má áfram út grýtta fjöruna og upp utan við hellinn. Páskahellir er skúti sem myndast hefur við sjávarrof. Í gafli hans má sjá holur eftir tré sem að öllum líkindum stóðu í skógi er varð undir hrauni fyrir um 12 millj. ára. Við hellinn er einnig hægt að virða fyrir sér fagurlega formað bólstraberg og volduga bergganga. Víða má sjá holufyllingar af bergkristal og fleiri steindum. Fögur útsýn er austur á Barðsneshorn og til Rauðubjarga með sínu eilífa sólskini. Sjór með smálífverum stendur uppi í pollum á Hellistanga og utar skreyta bláliljubreiður klettana að sumri.
Sagt er að á páskadagsmorgun megi sjá sólina dansa í hellinum. Sagan segir einnig að bóndinn á Bakka hafi þar forðum á páskadagsmorgun náð hami fríðrar selameyjar sem hafði ásamt fleirum úr liði Faraós gengið þar á land til gleðileika. Giftist bóndinn henni og áttu þau sjö börn. Náði hún þá haminum aftur og hvarf í sæ til annarra sjö barna. Seinna bætti sami bóndi kúakyn sitt með sænauti en hann náði að sprengja belg þess við Uxavog. Var talið að selkonan hafi þar sent fyrrum manni sínum björg í bú.


Hundsvík
Hægt er að ganga frá Páskahelli út að Hundsvík og ofan í víkina. Þar er fagurt útsýni yfir Norðfjarðarflóa og til suðvesturs sér inn í Viðfjörð og Hellisfjörð. Upp að líta rís Nípan með hamraflugum, giljum og fossandi lækjum snemmsumars. Fært er áfram út að Nípustapa en gæta skal varúðar þar sem hætta getur verið á grjóthruni við vissar aðstæður.
Um Skálasnið eða Klofasteinagjót
Upp úr Haga er gengt um Skálasnið upp á utanverða Neðri-Hálsa eða um Klofasteinagjót upp í enda Mjóurákar. Báðar leiðir eru sæmilega greiðar en nokkuð brattar og ástæða til að gæta varúðar við uppgönguna. Ríkulegur blómgróður er undir klettunum og fallegar lyngbrekkur.
Á þessum slóðum leynist lyngbúinn og burkninn þúsundblaðarós sem eru fágætar tegundir. Er upp í klettana kemur má, auk algengra berangursplantna, finna bergsteinbrjót og klettafrú sem einnig eru fágætar. Gæta skal þess að hrófla ekki við þessum tegundum eða vaxtarstöðum þeirra.


Út Hagakletta
Góð gönguleið er út Hagakletta og hægt að ganga áfram upp á Efri-Hálsa eða niður í Haga um Skálasnið eða Klofasteinagjót. Yst á Efri-Hálsum er gróið klettanef með stórum steini og kallast þar Þúfa. Utan hennar byrjar Breiðarák eða Göngurák. Frá Þúfu er fallegt útsýni út með Nípunni, niður í Hundsvík og Páskahelli og inn til Hagans.


Viðarhjallinipa
Hægt er að ganga upp á Viðarhjalla af Efri- Hálsum um Breiðasnið. Hjallinn er allbrattur en þar er fallegur gróður, lyng, víðir og skriðult birki, og gott útsýni. Áður fyrr var geitum beitt þar auk sauðfjár. Innst á hjallanum rennur Hálsalækur niður á Hálsa, hjá Selhrauni og niður í innanverðan Haga.

 
Nípukollur
Gönguferð á Nípukoll er fyrir þá sem eru vanir fjallgöngum. Sæmileg leið er upp um hamrabeltin rétt innan við gil Stóralækjar. Frá Nípukolli er mikið og fagurt útsýni, Mjófjörður og Norðfjörður blasa við og fjöll nær og fjær.
Kerling var klettastrýta sem stóð utan í Nípunni ofarlega og er nú horfin. Talið er að hún hafi hrapað um 1850. Sagan segir að Nípukerlingin væri tröll í álögum og drangurinn Einbúi í Dalbakka handan Mjóafjarðar væri bóndi hennar. Víst er að þau hröpuðu og hurfu með stuttu millibili.

 

 

 

Hólmanes - Fólkvangur og friðland

Friðlýsing
Hólmanes og hluti af Hólmahálsi var friðlýst árið 1973 sem fólkvangur norðanmegin en friðland sunnanmegin og réði því mismunandi eignarhald. Um svæðið gilda þó samræmdar reglur. Samkvæmt náttúruverndarlögum eru fólkvangar svæði sem friðlýst eru til útivistar og almenningsnota en hafa einnig að geyma fjölbreytta og fagra náttúru. Friðland er svæði sem mikilvægt er að varðveita sakir sérstaks landslags eða lífríkis. Til að ná markmiðum friðlýsingarinnar gilda eftirfarandi reglur um svæðið:
Gangandi fólki er frjáls umferð enda virði það almennar umgengnisreglur
Ekki má skemma gróður eða trufla dýralíf
Mannvirkjagerð, jarðrask og meðferð skotvopna eru bönnuð á svæðinu
Svæðið er kjörið útivistarsvæði og ákjósanlegt til kennslu og náttúrufræðslu enda er landslag og lífríki þar fjölbreytt og jarðfræðin áhugaverð.


Landslag og jarðfræði
Hólmatindur er afar tilkomumikið fjall og rís 985 m yfir sjávarmál milli Eskifjarðar og Reyðarfjarðar. Hólmanes sem teygir sig til suðausturs frá honum er klettótt og ber þar mest á Ytri-Hólmaborg (114 m) en norðan á nesinu er þó nokkurt sléttlendi. Utan til á nesinu eru víða hamrar í sjó fram en innar malar- og þangfjörur.

Hólmanes og Hólmaháls eru að miklu leyti úr basísku bergi sem hefur storknað á yfirborðinu og er dökkt á lit. Yst á nesinu er berggrunnurinn þó úr súru gosbergi, svokölluðu líparíti, sem er ljósleitt og er þetta vestasti og yngsti hluti Reyðarfjarðareldstöðvar sem var virk fyrir 11-12 miljónum ára.  Líparítið er viðkvæmt fyrir veðrun og klofnar sundur í flögur og sést þetta mjög greinilega norðan og austan við Ytri-Hólmaborg. Borgirnar og Hólmarnir eru aftur á móti innskot sem hafa myndast við storknun bergkviku neðanjarðar sem tróðst inn á milli hraunlaganna er fyrir voru. Þessi innskot, sem eru úr basísku bergi, svokölluðu díabasi, reyndust harðari en hraunlögin í kring og hefur því rofmáttur ísaldarjökulsins ekki náð að vinna eins auðveldlega á þeim og berginu í kring.  

Eftir að eldvirkni lauk við Reyðarfjörð hafa roföfl unnið að landmótun og áhrifamestir voru jöklar ísaldar. Reyðarfjörður er heljar¬mikill jökulsorfinn dalur og lá meginjökullinn út eftir honum. Annar þynnri jökull hefur skriðið út Eskifjörð og er hann því grynnri en Reyðarfjörður. Dýpi í mynni Eskifjarðar er 30-50 m en 60–150 m í Reyðarfirði, sunnan við nesið. Hólmarnir líta út eins og hvalbök og  vitna um skriðstefnu jökulsins.

Skeleyri hefur myndast við sjávarrof í Reyðarfirði. Hún er gerð úr líparítmöl sem sjórinn hefur skolað utan úr Básum og hlaðið upp á straumaskilum.


IMG 2570Gróðurfar
Í Hólmanesi má finna fjölbreytileg gróðurlendi og mikla tegundafjölbreytni þrátt fyrir að nesið virðist fremur hrjóstrugt. Alls hafa verið skráðar ríflega 150 tegundir háplantna á friðlýsta svæðinu. Þar vaxa einkennisjurtir Austfjarða: Sjöstjarna, gullsteinbrjótur, maríuvöttur, klettafrú og bláklukka.  Einnig allmargar fremur sjaldgæfar tegundir svo sem villilín, dökkasef, aronsvöndur, sigurskúfur og stóriburkni.

Graslendi er meðfram ströndinni einkum við Baulhúsavík og kringum Leiðarhöfða en einnig við Baulhús. Mosi er áberandi í brekkum austan í Hólmahálsi, utan í Borgum og á flatlendinu upp af Skeleyri og Básum. Hann er ýmist einráður eða innan um lyng, sef eða gras. Gróskumikill lynggróður er víða í brekkum, einkum í vestanverðum Baulhúsadal, Urðarhvammi og innan um mosagróðurinn í allri brekkunni austan í Hólmahálsi.

Baulhúsamýri er stærsta votlendið en votlendi er einnig  í Borgahvammi og mýrablettir eru í brekkunum suðaustan í Hólmahálsi. Víða sjást lítil flög og opnur í gróðurþekjunni, og þar er  kjörlendi tegunda svo sem flagahnoðra, blómsefs, flagasefs og dökkasefs. Þykkur mosi þekur urðirnar í Urðarhvammi og við Ytri-Hólmaborgina og burknar og elftingar leynast milli steina í urðunum þar sem skjólgott er og skuggsælt. Í klettaveggnum utan í Hólmaborgum og upp af Urðarhvammi vaxa klettafrú, bergsteinbrjótur, burknar og fleiri tegundir.

Dýralíf
Mikið fuglalíf er í Hólmanesi allt árið um kring.  Sjófuglar setja mestan svip á fuglalífið en í fjörum og móum vappa vaðfuglar og mófuglar. Endur og gæsir sjást í Hólmunum og sjónum þar um kring. Í Langhömrum, Ytri-Hólmaborg og í sjávarhömrum er varpstaður fjölmargra bjargfugla. Fýll er algengur og verpir á klettasyllum víðs vegar um nesið og silfurmáfabyggð er uppi á Ytri-Hólmaborg. Æðarfugl verpir aðallega í hólmunum en einnig víðar með ströndinni og stöku sinnum leynist æðarkóngur í hópi þeirra.  Toppönd, grágæs, stelkur, heiðlóa, hrossagaukur, tjaldur, svartbakur, þúfu¬tittlingur, lundi, rita,  teista, steindepill og hrafn eru allt varpfuglar í Hólmanesi. Töluvert kríuvarp var í Leiðarhöfða á árum áður en er nú lítið. Fleiri fuglar dvelja þar en verpa  ekki, t.d. sést dílaskarfur við sunnanvert nesið og tildrur við Stórhólma. Áður verpti bjargdúfa á þessum slóðum en flutti sig um set.

Skeljar finnast einkum á Skeleyri en klettadoppur og hrúðurkarlar sitja á steinum og klettaveggjum, meðal annars í Básum.  Í brekkum leynast lyngbobbi og svartsnigill.

Tófa sést í Hólmanesi og þar finnst greni af og til.  Minkur er þar líka og er hann ásamt tófunni vágestur í æðarvarpi.  Hreindýr sjást stundum í Hólmanesi síðla vetrar, einkum tarfar.


Gönguleiðir og áhugaverðir staðir

Gönguleiðakort  fyrir Hólmanes

 

Baulhús - Baulhúsamýri (1)
Gengið er frá áningarstaðnum við þjóðveginn og niður að bæjarstæðinu. Baulhús munu hafa byggst fyrst um 1830 sem afbýli frá Hólmum. Býlið dregur nafn af kletti sem kallast Baula og er í flæðarmálinu rétt vestan við Skeleyri. Þar var búið frá um 1830 til 1845 og aftur frá 1909 til 1917 og enn má sjá móta þar fyrir túni.  Útsýni er fagurt frá Baulhúsum og  tilvalið að setjast á tóftarveggina og hugsa til fornra búskaparhátta eða ganga út í Baulhúsamýri og skoða votlendisplöntur eins og t.d. vetrarkvíðastör, hengistör, mýrastör, gulstör, klófífu, mýrelftingu, engjarós og horblöðku.

 

Skeleyri (2)
Frá Baulhúsum er auðvelt að ganga út á Skeleyri.   Í fjörunni  má sjá strandplöntur sem þola seltu sjávar svo sem blálilju, hrímblöðku og fjöruarfa og á fjörukambinum kattartungu, tágamuru og hvönn. Æðarfugl og fleiri fuglar sjást á sundi við ströndina og vaðfuglar spígspora í fjörunni. Fagurt útsýni er yfir fjörðinn og til hafs. Ströndin út með firði að norðan er skreytt grænum túnblettum, uppaf rís margbrotinn fjallgarður og eyjan Skrúður sést í fjarska.  Á hina höndina eru fyrst grasi vaxnar og blómskrúðugar  brekkur með smá klettum en undan Baulhúsum mosaríkir móar og mýri. Á grynningu í sjónum vestan við Skeleyri má sjá  hellur úr ljósu líparíti standa uppá rönd á sérstæðan hátt. Skeleyrin sjálf er formfögur með sínum ávölu línum og ljósleitri möl. Þar er kjörið að skoða skeljar, vaða í sjónum á heitum dögum og fara í leiki.

 

 Holmanes080Básar - Ögmundargat (3)

Ef haldið er áfram frá  Skeleyri út ströndina er komið  í Bása sem eru litlar hömrum girtar víkur. Utarlega milli tveggja bása er Ögmundargat. Það dregur nafn sitt af fjármanni á Hólmum er Ögmundur hét. Eitt sinn var hann þar með fé sitt og beitti því á þara í bás eða viki einu við sjóinn og var öðrumegin þunn brík eða kambur sem gekk fram í sjó. Dvaldi Ögmundur svo lengi með féð þarna að hann flæddi uppi svo að hann sá sér ekki bjargar von en brim var að vaxa og blasti dauðinn við honum.  Tekur hann þá til bragðs að pjakka með broddstaf sínum gat í gegnum fyrrnefnda brík og komst þar í gegn með allt féð. Gatið hefur verið við hann kennt; var það svo stórt að á stórstraumsflóði og í ládeyðu var hægt að skjótast þar í gegn á fjögurra manna fari. Nú hefur brimið brotið stykki framan af bríkinni og  rofið gatið á eina hlið, en sagan um hinn úrræðagóða smala lifir enn.

 

Gránubás - Hellrar - Borgasandur (4)
Úr Básum er gangfært suður í Gránubás sem dregur nafn sitt af grárri hryssu sem sögð er hafa synt yfir Reyðarfjörð frá bænum Eyri og komið þarna í land. Áfram er gengt um Hellra og yfir í Borgahvamm suðvestan undir Ytri-Hólmaborg. Gæta þarf varúðar á leiðinni, einkum ef hált er. Úr Borgahvammi má halda upp á Innri-Hólmaborg eða ganga öðruhvoru megin við hana í Urðarhvamm eða í Urðarskarð.

Ytri-Hólmaborg (5)
Hægt er að ganga á Ytri-Hólmaborg og er sæmileg leið á hana upp að austan. Útsýni þar er fagurt og ómaksins virði að ganga þar upp. Norðan í Ytri-Hólmaborg er Sauðahellir, allmikill skúti, og er sagt að þar hafi Hólmabændur fengið skjól fyrir sauði sína í vondum veðrum. Hægt er að ganga að Sauðahelli t.d. frá Skeleyri að norðan eða frá Borgahvammi að sunnan. 


Holmanes300Innri-Hólmaborg – Urðarskarð - Urðarhvammur (6)
Ganga á Innri-Hólmaborg er tiltölulega auðveld hvort sem er austan frá eða úr Urðarskarði.  Ágætt útsýni er af borginni og úr Urðarskarði og er gaman að skoða jökulsorfnar klappir uppi á Borginni.
Urðarhvammur er sérstakt ævintýraland. Urðin er hrun eða berghlaup með mosavöxnu stórgrýti og milli steinanna eru gjótur þar sem finna má elftingar og burkna. Upp frá urðinni norðanmegin er brött sólrík brekka í skjóli fyrir norðanátt og er hún vaxin miklu blómskrúði og berjalyngi. Þar vex stóriburkni á einum stað. Í klettaveggnum vaxa aronsvöndur, sigurskúfur, reyniviður, burknar og steinbrjótar. Gæta skal þess að skerða ekki sjaldgæfar tegundir svo sem aronsvönd og stóraburkna eða vaxtarstaði þeirra.

Hólmarnir - Leiðarhöfði - æðarvarp (7)
Hægt er að ganga úr Urðarhvammi eða frá þjóðveginum sunnan í Hólmahálsi niður að ströndinni við Leiðarhöfða og Hólma. Hólmarnir aðrir en Flathólmi eru allháir og kúptir, iðjagrænir af skarfakáli sumar sem vetur og veita skjól fjölda fugla, einkum æðarfugli og lunda, en sá síðarnefndi verpir aðeins í Stórhólma.
Leiðarhöfði mun bera nafn sitt af leiðarþingum sem Reyðfirðingar sóttu þar til forna. Samkvæmt heimildum voru á þessum slóðum tvö afbýli frá Hólmum; Stekkur var upp af Leiðarhöfða og á grandanum milli Leiðarhöfða og lands var Eneshús sem líklega var íveru- og sjóhús byggt af norskum síldveiðimanni um 1880. Umferð er bönnuð um ströndina við Leiðarhöfðavík og Leiðarhöfða á tímabilinu 15. apríl til 15. júní vegna æðarvarps.

Völvuleiði á Hólmahálsi (8)
Hægt er að keyra eða ganga frá þjóðveginum upp að Völvuleiði efst á Hólmahálsi. Áður voru þar þrjár steinhellur en nú hefur verið hlaðin há varða á legstað völvunnar sem er talin vera verndarvættur Reyðarfjarðar. Sagan segir að Völva ein hafi búið á Sómastöðum í Reyðarfirði nokkru fyrir þann tíma er Tyrkir rændu hér við land árið 1627. Áður en hún andaðist mælti hún svo fyrir að sig skyldi grafa þar er best væri útsýni yfir Reyðarfjörð og kvað þá fjörðinn aldrei mundu rændan af sjó meðan nokkurt bein í sér væri ófúið. Var hún þá grafin á fyrrnefndum stað. Þegar Tyrkir komu að Austfjörðum hugðust þeir sigla inn á Reyðarfjörð og ræna Hólmakirkju og kaupstað að Breiðuvíkurstekk.  En er þeir komu í fjarðarmynnið kom á móti þeim geysandi stormur svo að fjöll þakti í sjávarroki beggja megin fjarðar. Urðu þeir frá að hverfa við svo búið.

Náttúrustofa Austurlands

  • Kt: 461094-2529
  • Sími: 477-1774
  • Netfang: na(hjá)na.is

Starfsstöð í Neskaupstað

Bakkavegi 5
740 Neskaupstaður

Starfsstöð á Egilsstöðum

Tjarnarbraut 39b
700 Egilsstaðir