Stunning Instagram Logo Vector Free Download 43 For New Logo with Instagram Logo Vector Free Download 1 1024x1024 fb40x40 unionjack

2018 Ester LogoNA PDF vefstr

logona314

Ný grein um vöktun gróðurs á Snæfellsöræfum og Fljótsdalsheiði

Náttúrustofa Austurlands vaktar ástand gróðurs í rannsóknarreitum á Snæfellsöræfum (42) og Fljótsdalsheiði (30) vegna hugsanlegra áhrifa Kárahnjúkavirkjunar, einkum Hálslóns. Meginmarkmiðið er að kanna langtímabreytingar á gróðri. Verkefnið hófst í Kringilsárrana árið 2006, sama ár og byrjað var að safna vatni í Hálslón. Næstu tvö ár var ástand gróðurs kannað á Vesturöræfum og Fljótsdalsheiði og mælingar á öllum svæðunum voru endurteknar áratug síðar.

Skýrslur á íslensku með niðurstöðum frá hverju svæði birtust á árunum 2016-2018 og eru aðgengilegar á síðu Náttúrustofunnar. Áhugi var fyrir að taka niðurstöður frá öllum svæðunum saman auk þess að gera gögnin aðgengileg til mögulegrar notkunar í stærri rannsóknum. Náttúrustofan skrifaði grein sem nú hefur verið birt í vísindaritinu Applied Vegetation Science. Titill greinarinnar er "Decadal vegetation changes in a subarctic-alpine ecosystem: Can effects of Iceland's largest hydropower reservoir, climate change, and herbivory be detected?"

Í greininni er fjallað um þær breytingar á gróðri sem vart var við á rannsóknartímanum og helstu mögulegu áhrifaþættir ræddir, þ.e. bein áhrif Hálslóns, loftslagsbreytingar og beitaráhrif. Gróður var fjölbreyttur og ýmis konar breytingar urðu á tímabilinu, en engin ein alhliða breyting varð á öllu rannsóknarsvæðinu. Mestu breytinganna varð vart á Fljótsdalsheiði, þar sem heildargróðurþekja minnkaði marktækt milli ára í mólendis- og votlendisreitum.

Niðurstöðurnar bentu til þess að svæðið væri undir margvíslegum og samverkandi áhrifum, m.a. af mannavöldum. Möguleg áhrif Hálslóns á gróður í reitum á tímabilinu voru einkum óbein, m.a. vegna taps á beitar- og varplandi og breytinga á hagagöngu hreindýra. Miklar stofnstærðarbreytingar hjá bæði hreindýrum og heiðagæsum um þetta leyti voru einnig líklegar til að hafa haft áhrif. Möguleg áhrif loftslagsbreytinga féllu í skuggann af miklum breytingum á landnotkun.

Greinin er tileinkuð einum af höfundunum, Skarphéðni G. Þórissyni og hana má nálgast með því að smella hér. 

Mynd

Náttúrustofa Austurlands

  • Kt: 461094-2529
  • Sími: 477-1774
  • Netfang: na(hjá)na.is

Starfsstöð í Neskaupstað

Bakkavegi 5
740 Neskaupstaður

Starfsstöð á Egilsstöðum

Tjarnarbraut 39b
700 Egilsstaðir