Árið 2020 komu 7 kvenkyns títur í fiðrildagildruna í Neskaupstað, allar komu þær í síðustu tæmingu í haust. Ein karl títa kom í gildruna í fyrra og ein árið 2019. Hafa títurnar nú verið greindar og eru þetta krummatítur (Pachytomella parallela) og eigum við því von á punkti á kortið hjá Náttúrufræðistofnun Íslands.
Krummatíta er ekki mjög áberandi í íslenskri náttúru og er útbreiðsla hennar hérlendis bundin við suðvesturhornið og telst því ekki sjaldgæf þar, tegundin hefur þó einnig fundist í Eyjafirði og nú á árið 2019 og 2020 á austurlandi.
Krummatíta er smávaxin og lætur lífið yfir sér, lífshættir hennar eru lítt þekktir en hún finnst í ýmiskonar þurrlendi úti í náttúrunni, jafnvel í blómabeðum og meðfram húsveggjum. Hún er langmest á ferðinni í júlí og ágúst en finnst þá alveg fram í september. kvenkyns títurnar sem komu í ljósgildruna í Neskaupstað eru þó utan þess tíma eða í vikunni 5-12.nóvember 2020
Margrét Gísladóttir hefur verið ráðin til Náttúrustofu Austurlands, en sautján sóttu um starf sem auglýst var í nóvember síðast liðinn. Margrét er jarðfræðingur að mennt og starfaði áður sem landvörður á hálendinu norðan Vatnajökuls. Sérsvið hennar er umhverfisjarðfræði, þá helst umhverfis-og loftslagsbreytingar en hún hefur vítt áhugasvið sem teygir sig inná marga anga náttúrufræðinnar, þá einna helst gróðurfar og náttúruvernd. Margrét hóf störf 16. febrúar og við bjóðum hana velkomna til starfa.
Náttúrustofa Austurlands hefur nú flutt aðalskrifstofu sína í Múlann, að Bakkavegi 5 í Neskaupstað. Náttúrustofan hefur frá árinu 1999 haft aðstöðu í húsnæði Verkmenntaskóla Austurlands með Matís (áður Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins) og fleiri fyrirtækjum og einstaklingum. Eftir góðan tíma þar taka nú við spennandi tímar í þessum nýja klasa.
Múlinn er samvinnuhús þar sem nokkur fyrirtæki og stofnanir koma saman á einum stað. Samvinnufélag útgerðamanna í Neskaupstað SÚN stendur að baki Múlanum, en búið er að gera upp eldri byggingu og byggja myndarlega við það húsnæði sem áður hýsti verslunina Nesbakka og þar áður útibú Kaupfélagsins Fram.
Auk Náttúrustofunnar verða í Múlanum starfsstöðvar Matís, Austurbrú, Deloitte, Stapa, Origo, Advania, Nox Health, MAST, Hafró og mögulega fleiri.
Við erum spennt fyrir nýjum breytingum á sama tíma og við kveðjum sambýlinga okkar í Verkmenntaskóla Austurlands með söknuði.