Stunning Instagram Logo Vector Free Download 43 For New Logo with Instagram Logo Vector Free Download 1 1024x1024 fb40x40 unionjack

2018 Ester LogoNA PDF vefstr

logona314
  • Fréttir

Hvít bláklukka

20210721 192000Náttúrustofu Austurlands hafa í sumar borist tvær tilkynningar/fyrirspurnir um hvíta bláklukku, annarsvegar í Fossárdal í Berufirði í júlí og hinsvegar í nágrenni Geithúsaár í Reyðarfirði nú í byrjun september.

Á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands segir um bláklukkur: Bláklukka er algeng á Austurlandi en sjaldgæf annarsstaðar, hún er mest á láglendi en sést þó einnig hátt upp eftir fjöllum. Plantan 15-40 sm á hæð og blómstrar bláum klukkum í júlí - ágúst. Bláklukka er einnig til sem hvítt afbrigði en það er sjaldgæft rétt eins og hvítt blágresi eða hvítir ljósberar.

Meðfylgjandi myndir voru teknar af bláklukkum í Fossárdal í júlí 2021 bæði hvítri en einnig hefðbundinni blárri.  Einnig er mynd af bláklukku tekin á Kambfelli í Reyðarfirði sumarið 2021.
Á vef Lystigarðsins á Akureyri má lesa um bláklukku.

Hvít bláklukka  Bláklukka

 

2021 Kambfell í Reyðarfirði bláklukka í 1000 m hys

 

 

Veiðimenn, endilega sendið okkur grágæsavængi eða góðar myndir til að við getum greint ungahlutfall í stofninum.

Náttúrustofa Austurlands hóf í fyrra vöktun á íslenska grágæsastofninum samkvæmt samningi við Umhverfisstofnun. Verkefnið er til þriggja ára (2020-2022) og er unnið í samvinnu við Náttúrufræðistofnun Íslands. Sjá nánar um verkefnið hér.


Mikilvægur þáttur verkefnisins er að fylgjast með hlutfalli unga í veiði, m.a. til að fá betri upplýsingar um varpárangur og fjölda unga í stofninum. Við fengum ágæt viðbrögð í fyrra, einkum af norður- og austurlandi, en það væri frábært að fá vængi víðar af landinu. Því óskum við nú eftir því að veiðimenn takið þátt í þessu verkefni með okkur sendi okkur vængi eða góðar myndir af vængjum og heildarafla. Megin áhersla okkar er á grágæsavængi, en við tökum þakklát við öllum vængjum.

 gæsavængurMeð vængjum eða myndum er mikilvægt að fylgi dagsetning og staðsetning veiða, eins nákvæm og veiðimenn vilja gefa upp. Fyllsta trúnaðar er gætt varðandi gögn sem veiðimenn skila inn.

Myndir má senda inn til na(hja)na.is eða í gegnum facebook síðu stofunnar. Annars vegar þarf nærmynd af væng tekið ofan frá fyrir hverja gæs (sjá mynd) auk myndar af heildarafla (hópmynd) eftir hverja veiðiferð þar sem kviður allra gæsanna vísa upp og sjást vel.

 

 

Staka vængi eða búkinn allan má senda til okkar með Landflutningum eða Eimskip merkta:
Náttúrustofu Austurlands
Tjarnarbraut 39b
700 Egilsstaðir
Náttúrustofan greiðir fyrir sendingakostnað.


Fyrstu niðurstöður gæsavöktunar voru birtar í fyrra og má nálgast skýrsluna hér. Gerð er grein fyrir vængjahlutföllum síðasta árs í skýrslu ársins í ár og svo koll af kolli, en þær eru settar fram samhliða niðurstöðum talninga á Bretlandi, sem ekki eru aðgengilegar fyrr.

Fugladagurinn 2021

IMG 3960Árlegur fugladagur Náttúrustofu Austurlands og Ferðafélags fjarðamanna var að þessu sinni haldinn 1. maí, fjara var á þægilegum tíma og mæting við leirurnar á Norðfirði var kl. 10:30 og á Reyðarfirði klukkan 11:30

Mjög fáir mætti á Norðfirði, eða 10 fyrir utan starfsmenn Náttúrustofunnar. Því miður fóru tryggir fuglaskoðarar sem ekki hafa látið sig vanta í mörg ár á mis við tíma og fóru því í sína eigin fuglaskoðun fyrr um morguninn. Skyggni var þokkalegt, háskýjað og úrkomulaust en svalt og hvessti fljótlega úr norðaustri og þar sem alda var nokkur sást ekki vel út á fjörðinn. Þrátt fyrir góðan klæðaburð entust menn ekki lengi í garranum.

Ýmsar tegundir eru rétt að mæta á Austurlandið og hending að þær sjáist í svo stuttri athugun. Alls sáust 22 tegundir á Norðfirði sem er nokkru færra en oft áður. Á leirunum, í höfninni og í fjarðarbotninum sáust eftirfarandi tegundir: grágæs, rauðhöfði, stokkönd, æður, hávella, tjaldur, sandlóa, sendlingur, stelkur, tildra, hettumáfur, sílamáfur, silfurmáfur, bjartmáfur, kría, og þúfutittlingur. Í graslendi ofan og innan við leirurnar sáust til viðbótar urtönd, jaðrakani, heiðlóa, hrossagaukur, skógarþröstur og hrafn.

Á Reyðarfirði mættu 16 manns. Veður var ágætt, breytileg gola, skýjað og hiti 1-2 °C. Alls sáust 33 tegundir á Reyðarfirði sem er í meira lagi. Tegundir sem sáust eða heyrðist í voru:skógarþröstur, hettumáfur, grágæs, stelkur, heiðlóa, heyrt í músarrindli, silfurmáfur, hettusöngvari, kría, sendlingur, stokkönd, hrafn, bjargdúfa, teista, urtönd, fýll, æður, hávella, svartbakur, skúfönd, tjaldur, bjartmáfur, rauðhöfðaönd, sílamáfur (sást áður en ferð hófst), toppönd, gargönd, heiðagæs, hrossagaukur, jaðrakan, sandlóa, tildra, maríuerla og himbrimi auk eins landsels.

Hjá Ferðafélagi fjarðamanna og Náttúrustofu Austurlands eru til upplýsingar um þennan skipulagða viðburð frá árinu 2002. Til gamans má geta að dagurinn hefur verið haldinn á tímabilinu 1.maí – 12.maí ár hvert og vorum við því í fyrra fallinu í ár. Algengast er að fugladagurinn sé þegar liðin er vika af maí, en tímasetning viðburðarins stjórnast af flóði og fjöru. Flestar tegundir fugla sáust árið 2015 á Reyðarfirði, samtals 37 tegundir en fæstar árin 2012 og 2016 á Norðfirði, einungis 17 tegundir bæði árin.

 

 

 

Náttúruvernd og efling byggða

KA 11juli2Náttúrustofa Austurlands, í samvinnu við Austurbrú, Múlaþing og Fjarðabyggð, boðar alla áhugasama til þriggja vinnustofa um samþættingu náttúruverndar og eflingu byggða.

Til umræðu verða þrjú svæði í nágrenni Djúpavogs, Gerpissvæðið og Úthérað og eru fundirnir opnir öllum.
Verkefnið er hluti af byggðaáætlun en tengist ekki vinnu við friðlýsingar heldur er um hugmyndavinnu að ræða. Vinnustofurnar hefjast á kynningu verkefnisins og í framhaldi verður rætt um sýn þátttakenda á framtíð svæðanna og umsjón þeirra, yrðu þau friðlýst eða núverandi fyrirkomulagi haldið óbreyttu.
Nálgast má tvær áfangaskýrslur verkefnisins á heimasíðu Náttúrustofunnar (na.is) og mun lokaskýrsla byggja á niðurstöðum vinnustofunnar.

Fundirnir fara fram á netinu.  Slóðir á fundina eru birtar hér en einnig má nálgast þær á Facebook-viðburðum hvers fundar sem auglýstir eru á fésbókarsíðu Náttúrustofunnar. Þar er einnig hægt að tilkynna þátttöku og skoða dagskrár fundanna.

Slóð á fundinn á Djúpavogi  - Upptaka frá fundinum  -  Skoðanakönnun

Slóð á fundinn um Gerpissvæðið  - Upptaka 1. Þorri  - Upptaka 2. Lilja  - Upptaka 3. Guðrún - Skoðanakönnun

Slóð á fundinn um Úthérað - Skoðanakönnun

 

IMG 6063 vodlavikJPG 

Vöðlavík

20200901 154552

Héraðssandur

  • 1
  • 2

Náttúrustofa Austurlands

  • Kt: 461094-2529
  • Sími: 477-1774
  • Netfang: na(hjá)na.is

Starfsstöð í Neskaupstað

Bakkavegi 5
740 Neskaupstaður

Starfsstöð á Egilsstöðum

Tjarnarbraut 39b
700 Egilsstaðir